10. janúar 2012 17:15 (1 lesandi hefur sagt álit sitt.)
Stórutjarnarskóli stefnir að því að verða heilsueflandi skóli
Svívirðileg uppskrift
Nú hafa aðstandendur Stórutjarnaskóla sótt um og fengið þáttökurétt í verkefninu Heilsueflandi skólar. Til að fagna því fengu nokkrir nemendur í 9. og 10. bekk það verkefni í matreiðslu að elda spínat-mandarínusalat m.m. Ekki gekk það nú hljóðalaust fyrst í stað og höfðu flestir sitt að segja um svona svívirðilega uppskift í kjölfar jóla. Engu að síður bragðaðist salatið aldeilis ágætlega eins og mynd-irnar bera með sér sem bendir til að ekki sé alltaf mikið mark takandi á áliti fólks, sérstaklega í óreyndu efni.
Eftir á litið voru flestir á því að þetta hefði bara bragðast nokkuð vel fyrir utan valhneturnar. En þær eru skilgreindar sem ofurfæði og því tilvinnandi að reyna að venjast þeirra bragði.
Verkefnið Heilsueflandi skólar sem er á vegum Landlæknisembættisins mun fléttast inn í umhverfisverkefni Landverndar, en síðastliðinn vetur var verið að vinna að lýðheilsu hér í skólanum og í vetur mun því þunginn verða áfram á heilsueflandi verkefnum.