Nemendur kynntu niðurstöður úr svefnkönnun sem lögð var fyrir grunnskólanemendur í febrúar. Sagt var frá þróunarverkefni sem skólinn tók þátt í ásamt nokkrum erlendum skólum, þar sem unnið var með lífbreytileika og af því tilefni kom út rafræn verkefnabók. Þá kynntu nemendur í fjórða til sjötta bekk hugtakið sjálfbærni og nemendur í fyrsta til þriðja bekk kynntu Heimsmarkmið Sameinuðuþjóðanna um sjálfbæra þróun. Eldri nemendur sögðu einnig frá áhugaverðu verkefni sem þau eru að vinna að um vistkerfi skólalóðarinnar.
Við þetta tækifæri afhenti Guðrún Scmith frá Landverd okkur fimmta Grænfánann sem nemendur í umhverfis- og lýðheilsunefndinni frá því í fyrra og núverandi nefnd veittu viðtöku.
Í lokin kvöddu nemendur Sigrúnu með gjöfum, en hún lét af störfum við skólann á afmælisdaginn sinn þann 27. október 2020. Sigrún sagði einnig frá starfi sínu með nemendum fyrri ára í umhverfis- og lýðheilsunefnd og upplifun þeirra af starfinu. Sigrún hefur leitt okkur áfram í umhverfismálum og komið okkur í fremstu röð Grænfánaskóla á landinu og þökkum við henni fyrir framúrskarandi gott starf í gegnum árin.
Þingið þótti takast mjög vel, það var fróðlegt og skemmtilegt og stóðu allir þátttakendur sig með prýði bæði þegar þeir fluttu sín erindi og einnig sem áheyrendur. Það var virkilega ánægjulegt að fá loksins að bjóða foreldrum, ömmum, öfum og öðrum gestum í skólann og þökkum við þeim kærlega fyrir komuna. Myndir hér.
Birna Davíðsdóttir
Myndir: jr |