Fyrsti viðkomustaður var Flugsafnið þar sem gaf að líta nýjar og gamlar flugvélar í ýmsum stærðum, þaðan fórum við á Listasafnið á Akureyri þar sem við sáum m.a. gamlar myndir af Listagili, sáum málverk eftir Erró og textíllistaverk eftir Lillý Erlu Adamsdóttur. Þá var komið að því að fara út að borða, þar fengu allir að velja sér af matseðli og fóru þaðan saddir og sælir.
Eftir matinn var ferðinni heitið inn í Minjasafnið á Akureyri, við gengum áleiðis inn Hafnarstræti þar sem mikið var tínt af túnfíflum sem stóðu sólgulir og pattaralegir undir húsvegg í vorsólinni. Eins sáum við mús á vappi yfir götu við Leikhúsið.
Helen tók okkur svo uppí og skutlaði okkur á Minjasafnið. Þar sáum við áhugaverða sýningu um Akureyri eins og hún var í gamla daga og aðra sýningu um tónlistarbæinn. Frá Minjasafninu fórum við með strætó í miðbæinn og þaðan í ísbúð þar sem allir völdu sér ískúlu.
Þar lauk þessari yndislegu útskriftarferð sem tókst í alla staði mjög vel, krakkarnir voru áhugasöm um það sem fyrir augu bar á söfnunum enda fengum við alls staðar mjög góðar móttökur og fræðslu sem hæfði þeirra aldri. Veðrið lék við okkur sem gerði kaupstaðarferðina enn ánægjulegri. Hér eru nokkrar myndir frá ferðinni góðu. |