2. febrúar 2010 08:35 (1 lesandi hefur sagt álit sitt.)
Þorri blótaður
Alltaf jafn gaman
S.l. fimmtudag, þann 28. janúar voru haldin þorrablót í Stórutjarnaskóla. Fjögurra og fimm ára börn úr leikskólanum, ásamt 1. – 5. bekk héldu sitt blót eftir hádegið og fengu þau að bjóða foreldrum sínum á blótið. Vel var mætt og fóru nemendur á kostum í skemmtiatriðum. Kl 20 um kvöldið var svo hið síðara blót haldið, en þá mættu 6. – 10. bekkur, ásamt starfsfólki skólans. Þar var ekki síður gaman, nemendur hermdu eftir starfsfólkinu eins og löng hefð er fyrir og ljóst að þá kúngst kunna margir vel.
Starfsfólkið sýndi að þessu sinni nokkurs konar Hrunadans, þar sem Tolli fór á kostum í Michael Jackson sporum. Þá áttu bílstjórarnir líka stórleik eins og venjulega, ekki síst Siggi á Krossi, sem las frumorta smásögu. Ekki er ólíklegt að hann verði innan tíðar kominn í hóp merkustu rithöfunda þjóðarinnar. Annars tala myndirnar sínu máli og ástæðulaust að fjölyrða frekar um þessar fínu skemmtanir.