Árshátíð Stórutjarnaskóla var haldin föstudagskvöldið 4. nóvember. Sýnd voru þrjú verk. Nemendur í 1. – 3. bekk sýndu verkið Greppikló sem unnið var upp úr bók eftir Julia Donaldsson og nemendur í 4.-7. bekk sýndu Dýrin í Hálsaskógi eftir Thorbjörn Egner. Að lokum sýndu nemendur í 8.-10. bekk frumsamið verk sem þau kölluðu Ónefnt Kúrekaleikrit. Óhætt er að segja að vel hafi tekist til. Nemendur stóðu sig með stakri prýði og voru skólanum sínum til mikils sóma. Þegar nemendur, starfsfólk og foreldrar vinna saman og leggja sig alla fram, eins og gerist í undirbúningi fyrir árshátíð, verður útkoman alltaf frábær. Þó svo að kvíði og stress geri vart við sig hjá einhverjum stoppar það ekki nemendur í að koma flóknum og erfiðum texta til skila og syngja að innlifun fyrir fullu húsi.
Að lokinni sýningu var dýrindis veisla í matsalnum, sjoppan opnuð og dansað í íþróttasal. Allur ágóði af árshátíð rennur í ferðasjóð nemenda og þökkum við kærlega fyrir stuðninginn. Myndir sem gaman er að skoða með fjölskyldunni og rifja upp atriði er að finna „hér“.