Í starfi grænfánaskóla þarf að sækja um nýjan fána á tveggja ára fresti og skila inn skýrslu til Landverndar til að sýna fram á að skólinn hafi uppfyllt þau atriði sem reglur kveða á um.
Síðast liðið vor sendi umsjónarmaður umhverfis og lýðheilsustarfsins í skólanum inn skýrslu og fyrir skömmu fór fram úttekt á starfinu rafrænt í gegnum Teams. Sú úttekt fólst í því að starfsmaður Landverndar spjallaði við nemendur í umhverfis- og lýðheilsunefndinni og innti þá eftir ýmsu í þeirri vinnu sem þeir hafa tekið þátt í og hvernig það hefði farið fram. Einnig var fundað með fulltrúum starfsmanna í nefndinni. Nú hefur skólanum borist endurgjöf þar sem jafnframt er tilkynnt að nemendur og starfsfólk hafi öðlast rétt til að skarta sínum 5. Grænfána.
Til stóð að halda umhverfis- og lýðheilsuþing í skólanum nú í október og veita þá fánanum viðtöku við það tækifæri en þinginu hefur verið frestað um óákveðinn tíma vegna Covid-smithættu.
Það yrði of langt mál að fara í gegnum alla þá þætti sem skólinn hefur haft á sinni könnu, en sem dæmi má nefna vistheimtarverkefnið sem nýlega fékk tilnefningu til menntaverðlaunanna og þátttöku tveggja kennara Stórutjarnaskóla í gerð kennsluefnis um lífbreytileika í gegnum E-Rassmus þróunarverkefni.
Frá upphafi hefur sami aðili, Sigrún Jónsdóttir, farið með umsjón verkefnisins en nú verður breyting þar á og mun Birna Davíðsdóttir taka við umsjón umhverfis- og lýðheilsumála í skólanum. |