Áföll og viðbrögð við þeim

Áfall er atburður sem hefur afgerandi áhrif á tilfinningalegt jafnvægi einstaklings eða hóps. Áhrifin eru það mikil og valda svo miklu álagi að hefðbundnar aðferðir til að bregðast við ástandinu nægja ekki.


Áfall er m.a. skilgreint sem:

  • alvarlegt slys
  • alvarlegur sjúkdómur
  • missir/andlát einhvers nákomins
  • kynferðislegt ofbeldi
  • skilnaður foreldra

 

Þegar áföll verða og sorg ber að dyrum hjá nemendum eða starfsmönnum skólans, er mikilvægt að þeir sem fyrir því verða eigi kost á aðstoð og stuðningi. Brýnt er að upplýsa alla starfsmenn um eðli málsins sem fyrst og skal það vera í höndum skólastjóra. Í framhaldi af því kann að vera nauðsynlegt að halda fund með starfsfólki, og koma sér saman um viðbrögð. Umsjónarkennari gegnir lykilhlutverki í námshópnum þar sem áfall hefur orðið, svo og aðrir umsjónarkennarar í sínum hópum. Skólinn hefur að sjálfsögðu aðgang að fagaðilum, s.s. sálfræðingi og presti, sem undantekningarlaust kemur að máli ef um dauðsfall er að ræða. Mikilvægt er að ræða við nemendur um sorgina og áhersla lögð á að sýna sérstaka tillitssemi, skilning og virðingu, auk þeirrar mannlegu hlýju sem hverjum og einum er ásköpuð. Skólinn leitast einnig við að finna úrræði fyrir starfsmenn sem orðið hafa fyrir áfalli, s.s. með leyfi frá vinnu, aðstoð við vinnu eða annað sem að gagni má koma. Nauðsynlegt er að kennari fái persónulegan stuðning þegar um alvarleg áföll í nemendahópi hans er að ræða.