Jafnréttisstefna Stórutjarnaskóla

Samkvæmt 18. gr. laga nr.10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, ber öllum fyrirtækjum og stofnunum sem hafa 25 starfsmenn eða fleiri að setja sér jafnréttisáætlun eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína. Markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Allir einstaklingar skulu eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni.

Jafnréttisstefna Stórutjarnaskóla tekur að auki mið af Jafnréttisáætlun Þingeyjarsveitar 2016-2020 og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Í lögum um grunnskóla nr. 91/2008, lögum um leikskóla nr 90/2008 og í Aðalnámsskrám leik- og grunnskóla er víða fjallað um jafnrétti kynjanna og mannréttindi. Þar er áherslan á að bæði kynin hafi jafnan rétt til þroska og náms, þátttöku í samfélaginu, fjölskyldu- og atvinnulífi. Markmið námsins og kennslunnar og starfshættir skólans skuli vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun m.a. vegna uppruna, kyns, kynhneigðar, búsetu, stéttar og trúarbragða.

Orðið jafnrétti hefur yfir sér blæ réttlætis þar sem allir sitja við sama borð. Allt skólastarf skal vera í anda jafnréttis. Jafnrétti á að vera samofið leik og starfi nemenda og starfsfólks og þurfa allir að geta starfað í þeirri vissu að ekkert hamli þeirra starfsánægju. Mikilvægt er að starfið mótist af metnaði og hvatningu til sjálfstæðra verka og aukinnar víðsýni, þar sem hver og einn fær notið sín á eigin forsendum. Unnið skal samkvæmt markmiðum Aðalnámskrám leik-, grunn- og tónlistarskóla. Þar kemur m.a. fram að markmið jafnréttismenntunar er að skapa jöfn tækifæri fyrir alla til að læra og þroskast á eigin forsendum og hæfileikum í anda víðsýnis og umburðarlyndis (Aðalnámskrá grunnskóla 2011 og Aðalnámskrá leikskóla 2011).

Jafnrétti er einn af grunnþáttum menntunar og undirstaða lýðræðis og mannréttinda í skólastarfi. Jafnréttisstefna Stórutjarnaskóla nær til allra starfsmanna og nemenda skólans. Horft er til hvers kyns mismununar er varðar kyn, aldur, kynþátt, fötlun, þjóðerni, heilsufar, kynhneigð, trúarbrögð, efnahag og aðra sérstöðu er getur skapast. Ekki má lítilsvirða menningu og skoðanir eða misbjóða einstaklingi eða hópum á þeim grundvelli.

Samskipti einstaklinga eiga að grundvallast á gagnkvæmri virðingu, kurteisi og tillitssemi, sem er forsenda þess að hverjum og einum líði vel. Gagnkvæmt traust og jákvæð og uppbyggileg samskipti móta framar öðru góðan starfsanda. Allir nemendur skulu hljóta fræðslu um jafnréttismál og bæði kynin skal búa undir jafna þátttöku í samfélaginu.

Siðareglur kennara kveða m.a. svo á að kennarar skuli hafa jafnrétti að leiðarljósi og að kennarar eigi að efla með nemendum gagnrýna hugsun, virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum, umhverfi og menningu. Þessu ber að fylgja.

Í Stórutjarnaskóla á sér reglulega stað innra mat á skólastarfinu, hvort sem um er að ræða starfsmannasamtöl, starfsmannakannanir eða kannanir meðal nemenda og foreldra. Með þessu gefst gott tækifæri til að kanna og leggja mat á stöðu jafnréttismála í skólanum.

Mikilvægt er að nemendur og starfsfólk skólans hafi rétt til að hafa áhrif á skólastarfið, stefnumótun og ákvarðanatöku og skal reynt að tryggja það með sem bestum hætti.

Allt uppeldis- og tómstundastarf, menntun og fræðsla sem fram fer á ábyrgð Stórutjarnaskóla skal hafa jafna stöðu kynjanna að leiðarljósi. Það skal einnig veita börnum og unglingum hvatningu og tækifæri til að rækta hæfileika sína og persónuþroska án þess að hefðbundnar kynjaímyndir hafi þar áhrif. Allt skólastarfið skal leitast við að styrkja jákvæða kynímynd stúlkna og drengja og vinna sérstaklega gegn áhrifum klámvæðingar meðal unglinga.

Sérstök ábyrgð er lögð á herðar skólastjórnenda. Þeir eiga að leggja áherslu á að allt skólastarf miði að því að undirbúa nemendur af báðum kynjum fyrir einkalíf, fjölskyldulíf, félags- og atvinnulíf.


Nemendur

Lögð er áhersla á að nemendum lærist að þekkja og tjá eigin tilfinningar. Þeir eiga jafnframt að kunna að virða tilfinningar annarra. Kennsluaðferðir og námsgögn, þ.m.t. leikföng, mega á engan hátt mismuna nemendum. Öll vinna nemenda skal vera í anda jafnréttis þar sem lögð er sérstök áhersla á að þeir rækti með sér samkennd, samhygð og virðingu fyrir skoðunum og lífsgildum annarra. Nemendur eiga að hafa jafnrétti að leiðarljósi í öllum samskiptum.

Starfsmenn skólans skulu hafa vakandi auga með einkennum sem gætu vísað til kynbundins ofbeldis, kynbundinnar áreitni eða kynferðislegrar áreitni gagnvart nemendum, en áreitni getur birst í mörgum myndum s.s. í orðum eða látbragði. Mikilvægt er að uppfræða nemendur um ofbeldi af þessu tagi og hvetja þá til að segja frá upplifi þeir slíkt. Stjórnendur bera ábyrgð á því að ofbeldi af hvaða tagi sem er viðgangist ekki í skólanum og meðferð slíkra mála er í þeirra höndum.

Allir kennarar skólans verða að skoða og meta allt námsefni út frá jafnréttissjónarmiðum. Það þarf að hafa að leiðarljósi að vinna með námsefni og kennslugögn sem byggja á jafnréttishugmyndum. Allar námsgreinar tengjast beint eða óbeint jafnrétti. Kennarar þurfa að beita fjölbreyttum kennsluháttum og hafa að leiðarljósi að í skólastarfinu sé þátttaka kynjanna sem jöfnust í sem flestum þáttum starfsins.


Starfsmenn

Sbr. 19., 20. og 21. gr. Jafnréttislaga skulu starfsmenn skólans njóta sömu möguleika til endurmenntunar og starfsþjálfunar. Þeir skulu einnig búa við jafna möguleika til stöðuhækkana, stöðubreytinga og breytinga á vinnuaðstæðum. Launajafnrétti er í skólanum fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Laus störf við skólann standa opin jafnt konum og körlum.


Öllum starfsmönnum er ljóst að kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni verður aldrei liðin í skólanum. Starfsmenn eiga alls ekki að sætta sig við kynbundið ofbeldi, kynferðislega eða kynbundna áreitni, en áreitni getur birst í mörgum myndum s.s. í orðum eða látbragði. Stjórnendur bera ábyrgð á því að kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni viðgangist ekki í skólanum og meðferð slíkra mála er í þeirra höndum. Stjórnendur Stórutjarnaskóla skulu gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk, nemar og skjólstæðingar verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni í skólanum. Það gerist fyrst og fremst með opinni umræðu og fræðslu þar sem lögð er áhersla á mikilvægi þess að segja frá, verði fólk fyrir áreitni. Ef yfirmaður er kærður vegna ætlaðs kynbundins ofbeldis, ætlaðrar kynbundinnar áreitni eða ætlaðrar kynferðislegrar áreitni verður hann vanhæfur til að taka ákvarðanir í tengslum við starfsskilyrði kæranda á meðan meðferð málsins stendur yfir og skal þá næsti yfirmaður taka slíkar ákvarðanir. - Jafnréttisráð skólans hefur eftirlit með að jafnréttisstefna þessi sé virt og eftir henni farið.