Námsvísir leikskóladeildar

Læsi og samskipti

 

Í leikskóla ber að skapa aðstæður svo börn fái ríkuleg tækifæri til að:
• Eiga jákvæð og uppbyggileg samskipti í barnahópnum.
• Endurskapa upplifun sína og reynslu í leik og skapandi starfi. 
• Tjá sig með fjölbreyttum hætti og með ólíkum efniviði. 
• Kynnast tungumálinu og möguleikum þess.
• Njóta þess að hlusta á og semja sögur, ljóð, þulur og ævintýri. 
• Þróa læsi í víðum skilningi.
• Öðlast skilning á að ritað mál og tákn hafi merkingu. 
• Deila skoðunum sínum og hugmyndum. 
• Nýta ólíkar leiðir og margvíslega tækni til að nálgast upplýsingar og

setja fram hugmyndir sínar. 
• Velta vöngum yfir eigin samfélagi og menningu og menningu annarra þjóða.

Aðalnámskrá leikskóla bls. 42-43

Málörvun fer fram í öllu starfi og leik barnanna. Unnið er með munnlegar frásagnir, sögur, bækur, loðtöflur, vísur og söngva. Börnin eru hvött til að segja frá og koma með eigin upplifanir. Frjálsi leikurinn fær mikinn tíma í starfinu, þar læra börnin m.a. samvinnu, að skiptast á og deila með sér. Lögð er áhersla á að börnin eigi góð samskipti hvert við annað, taki tillit og beri virðingu hvert fyrir öðru.

Stafaspjöld hanga uppi á veggjum leikskólans, kubbar með stöfum, stafapúslur og stafaspil eru aðgengileg. Börnin læra að þekkja nafnið sitt og stafi úr umhverfi leikskólans. Hvert barn á sitt hólf, körfu og stól með nafni. Undanfari lestrarkennslu er góð málörvun og örvun ritmáls og eru nemendur hvattir til að skrifa sjálfir stafinn sinn eða nafn.

Börnin læra að þekkja ýmis stærðfræðitengd hugtök, þau flokka og raða, vinna með kubba, púslur, perlur og pinna.

Bækur eru eðlilegur og sjálfsagður hluti í umhverfi leikskólans og hægt að grípa til þeirra hvenær sem hentar. Í hvíldarstundum hlusta börnin á sögur. Eldri börnin fara einu sinni í viku á bókasafn, þau fá lánaðar bækur heim með sér af safninu. Umsjónamaður bókasafns sér um þessa tíma.

Markviss málörvun, þjálfun hljóðkerfisvitundar eftir Helgu Friðfinnsdóttur, Sigrúnu Löve og Þorbjörgu Þóroddsdóttur er höfð til stuðnings. Einnig er Sögugrunnur eftir Rannveigu Oddsdóttur og Guðrúnu Sigursteinsdóttur notaður m.a. til að efla frásagnir og sögugerð. Kátt er í kynjadal er hefti þar sem unnið er með undirstöðuþætti í stærðfræði. Hljóm II er lagt fyrir öll börn, en það metur hljóðkerfisvitun.

Heilbrigði og vellíðan

Í leikskóla ber að stuðla að heilbrigði og vellíðan barna með því að leggja áherslu á: 
• umhyggju,
• persónulega umhirðu,
• holla næringu,
• fjölbreytta hreyfingu,
• ögrandi og krefjandi útivist,
• slökun og hvíld,
• tilfinningalegt jafnvægi,
• jákvæð samskipti,
• félagsleg tengsl.

Aðalnámskrá leikskóla bls. 43

Áhersla er lögð á að börnunum líði vel, að þau finni umhyggju, að þau séu örugg og velkomin í leikskólann. Börnunum er uppálagt að taka tillit hvert til annars, bera virðingu og sýna samkennd. Einnig er lögð áhersla á að styrkja sjálfsmynd þeirra, að þeim líði vel í barnahópnum og séu hluti af honum.

Öll börnin fara í hvíld eftir hádegismatinn, þau yngri sofa en þau eldri liggja, hlusta á sögu, slaka á og láta líða úr sér.

Útivist er mikilvægur þáttu í starfinu, þar sem börnin fá þjálfun í grófhreyfingum og þreki á leiksvæði skólans. Farið er í gönguferðir um nánasta umhverfi skólans, þar sem börnin skynja umhverfi sitt og læra að meta það.

Nemendur leikskólans fara í hreyfingu hjá íþróttakennara einu sinni í viku. Sundaðlögun fer fram haust og vor, þá fara eldri börnin í sundtíma hjá íþróttakennara.

Börnin borða morgunmat og hádegismat í matsal skólans. Ýtt er undir sjálfshjálp meðal barnanna. Í matmálstímum gefst tækifæri til samræðna, lögð er áhersla á að börnin tileinki sér góða borðsiði og matarvenjur.

Áhersla er lögð á að börnin tileinki sér góðar umgengnisvenjur og almennt hreinlæti, þvoi hendur eftir salernisferðir og fyrir matmálstíma.

Sjálfbærni og vísindi

Í leikskóla á að skapa aðstæður svo börn fái tækifæri til að vinna með og velta vöngum yfir:
• umgengni sinni og virðingu fyrir náttúrulegu og manngerðu umhverfi,
• hvernig vistspor þeirra og nærsamfélags geta stuðlað að sjálfbærri þróun,
• hringrásum og fyrirbærum í náttúrunni,
• margvíslegum auðlindum náttúrunnar,
• nýtingu náttúrunnar,
• upplýsingamiðlum, framsetningu og gildi upplýsinga,
• stærðfræðilegum viðfangsefnum, s.s. tölum, táknum og mynstrum,
• lífverum í umhverfinu og lífsháttum þeirra,
• eðli ýmissa krafta og birtingarmyndum þeirra í umhverfinu,
• eiginleikum ýmissa efna og hluta,
• möguleikum og takmörkunum tækninnar,
• rými, fjarlægðum og áttum 

Aðalnámskrá leikskóla bls. 44

Mikið er lagt upp úr því að börnin fái notið náttúrunnar og umhverfisins í kringum skólann og í nærsamfélaginu. Farið í gönguferðir, börnin læra að þekkja helstu kennileiti, plöntur og þau dýr sem eru í umhverfinu. Fjölbreyttur efniviður er fenginn í náttúrunni, unnin eru verkefni og gerðar tilraunir.

Börnin læra um árstíðirnar, velta fyrir sér hvað greinir þær að, læra þulur og kvæði og syngja lög þeim tengd.

Stærðfræði er auðvelt að vinna úti í náttúrunni með því að finna mynstur, flokka, para, telja og greina. Rætt er um veðrið og hvernig best sé að klæða sig í samræmi við það.

Skólinn er grænfánaskóli, hægt er að lesa um það á heimasíðu skólans undir Grænfánastefnu Stórutjarnaskóla.

Sköpun og menning

Í leikskóla á að vera rými fyrir sköpunarferli og fagurfræðilega tjáningu þar sem börn:
• Njóta þess að taka þátt í skapandi ferli.
• Finna til ánægju og gleði yfir eigin sköpunarkrafti.
• Kanna og vinna með margvíslegan efnivið.
• Nýta fjölbreytta tækni.
• Kynnast bókmenntum, þulum, sögum og ævintýrum.
• Læra texta og taka þátt í söng.
• Skapa og tjá upplifun sína, s.s. í myndlist, tónlist, dansi og

leikrænni tjáningu.
• Njóta fjölbreyttrar menningar og lista.
• Taka virkan þátt í að móta menningu leikskólans með hátíðum

og viðburðum sem tengjast barnamenningu.
• Kynnast og vinna með listafólki á hinum ýmsu sviðum menningar og lista.

Aðalnámskrá leikskóla bls. 45

Leikskólinn Tjarnaskjól er ein af deildum Stórutjarnaskóla og ber þannig keim af öðru starfi skólans. Því eru tengsl við grunnskólastarf og tónlistarnám ríkur þáttur í starfinu.

Hefðir og siðir eru sameiginlegir í öllum skólanum, þar má nefna; danskennslu, jólaball, þorrablót, öskudag, árshátíð og menningarstundir.

Þá eru farnar vettvangsferðir um nærsamfélagið í því skyni að efla tilfinningu barnanna fyrir samfélagi sínu.

Í samverustundum, hópastarfi og víðar er sungið, farið með þulur og vísur sem m.a. tengjast árstíðum og hefðum. Einnig er brugðið á leik með söngleikjum og hljóðfærum s.s. hristum, bjöllum og trommum.

Eldri börnin fara í einn tíma á viku til tónmenntakennara. Þar sem þau syngja, dansa, leika og vinna verkefni. Fimm ára eru í yngri barna kór skólans.

Í leikskólanum fá börnin margvísleg tækifæri til að tjá sig í myndum og með mótanleg efni. Verk barnanna eru hengd upp í leikskólanum þar sem allir geta notið þeirra. Þetta er liður í að efla sjálfstraust barnanna og kennir þeim að virða verk sín og annarra. Fimm ára börnin fara í handmennt og smíðar ásamt yngsta hópi grunnskólans, þegar þannig háttar til.