Eineltisáætlun

Hvað er einelti?

 • Einelti er síendurtekið áreiti eða ofbeldi, líkamlegt eða andlegt sem stýrt er af einstaklingi eða hópi og beinist að ákveðnum aðila sem ekki getur varið sig.
 • Einelti er markviss misbeiting valds þar sem reynt er að niðurlægja þolandann.


Einelti birtist í ýmsum myndum svo sem:

 • síendurtekinni stríðni
 • niðurlægjandi athugasemdum og sögusögnum
 • félagslegri höfnun
 • valdbeitingu bæði gagnvart þolanda og eigum hans
 • misþyrmingum, svo sem spörkum og barsmíðum


Gagnkvæm átök, stríðni og árekstrar milli jafningja teljast ekki til eineltis.

 

 

Vísbendingar um einelti


Barn sem verður fyrir einelti segir yfirleitt ekki frá því. Ákveðin atriði í fari barnsins benda hins vegar til eineltis. T.d. þegar barnið:

 • vill ekki fara í skólann, mætir of seint eða skrópar
 • forðast ákveðnar aðstæður í skólanum, t.d. leikfimi og sund
 • skortir einbeitingu og fer að ganga verr í námi
 • sýnir vanlíðan en vill ekki segja af hverju, kvartar frekar um höfuðverk, magaverk, missir sjálfstraustið eða sýnir óvæntar skapgerðarbreytingar
 • breytir svefn- og matarvenjum
 • er eitt og hefur ekki félagsskap annarra
 • kemur heim með skemmdar eigur
 • er með marbletti og skrámur sem það getur ekki útskýrt

 

 

Hvernig má fyrirbyggja einelti?

 • gera þarf börnum grein fyrir því hvað einelti er og hvað það hefur í för með sér fyrir þolandann
 • efla þarf með börnum grundvallar dyggðir eins og vináttu, sáttfýsi, sanngirni, góðvild og umburðarlyndi.
 • kanna reglulega hvernig nemendum líður í skólanum
 • fylgjast með samskiptum nemenda

 

 

Hlutverk starfsmanna skóla


Allir starfmenn skólans þurfa að vera vakandi fyrir velferð nemenda, vera þeim góð fyrirmynd í daglegri umgengni og gera viðvart og bregðast við óæskilegri hegðun m.a. ef grunur vaknar um einelti. Ofbeldi er hegðun sem aldrei er hægt að líða og ber að tilkynna foreldrum barna um öll slík tilvik.

 

Hlutverk foreldra


Foreldrar þurfa að vera vakandi yfir líðan, námsgengi og félagslegri stöðu barna sinna og hafa samband við skólann ef grunur um eitthvað óeðlilegt vaknar.

 

Hlutverk nemenda


Nemendur þurfa að taka afstöðu gegn einelti og ofbeldi og bregðast við því með því að láta vita ef þeir verða varir við slíkt.

 

Ábyrgð


Ef upp kemur einelti eða annað ofbeldi í skólanum eiga umsjónarkennari og skólastjóri að vinna að lausn málsins og hafa samband við foreldra. Leita skal aðstoðar skólasálfræðings og annars fagfólks eftir þörfum. Annað starfsfólk, foreldrar og nemendur geta aðstoðað við lausn mála. Vakni grunur um einelti eða ofbeldi á strax að láta umsjónarkennara viðkomandi nemenda vita. Umsjónarkennari nemanda sem orðið hefur fyrir einelti ber ábyrgð á að koma upplýsingum um málið til kennara, annars starfsfólks og foreldra.

 

Skráning


Skólastjóri skal sjá um að skrá upplýsingar um öll eineltis- og ofbeldismál. Þar komi fram lýsing á hvernig tekið var á málinu, hvernig það leystist og hverjir eiga að fylgja málinu eftir. Umsjónarkennarar haldi eigin skrá um eineltis- og ofbeldismál sem upp koma hjá þeim, hvernig mál þróast og hvernig unnið er úr þeim.

Hvernig tekið er á einelti

 • Ef grunur um einelti (eða annað ofbeldi) kemur upp, á að láta umsjónarkennara viðkomandi nemenda vita, hann á að kanna málið og hafa samráð við skólastjóra og allt starfsfólk skólans vinnur sameiginlega að úrbótum.
 • Tryggja þarf öryggi þolanda og afla góðra upplýsinga um málið eins fljótt og hægt er. Ekki á að spyrja þolanda í viðurvist annarra barna og varast skal að gefa gerendum kost á að hópa sig saman í varnarstöðu.
 • Þolandi og foreldrar hans eiga að fá stuðning. Þolandinn á að fá að vita að eineltið sé ekki honum að kenna.
 • Árangursríkast er að tala við gerendur einn og einn í senn. Þegar talað er við gerendur á að gera þeim ljóst að þeir verði að hætta eineltinu. Sá sem ræðir við gerendur á að sýna þeim kurteisi, varast skammir en ganga út frá því að þeir bæti ráð sitt.
 • Þegar foreldrar gerenda eru kallaðir til á að leggja áherslu á að ná góðu samstarfi við þá. Gera skal ráð fyrir að foreldrarnir vilji ekki að barn þeirra leggi aðra í einelti. Foreldrar eiga oft erfitt með að trúa að barn þeirra hagi sér þannig.
 • Þegar nemandi leitar hjálpar vegna eineltis eða ofbeldis verður að koma í veg fyrir að hann verði fyrir hefndaraðgerðum frá gerendum.
 • Fylgjast þarf með málsaðilum eftir að unnið hefur verið að lausn eineltismála til þess að sama sagan endurtaki sig ekki.


Lykilatriði á heimili og í skóla er að þar ríki hlýja, einlægur áhugi og alúð hinna fullorðnu.