Ein stofnun - þrír skólar

Samþætting skólastiga

Stórutjarnaskóli er í senn, grunnskóli, leikskóli og tónlistarskóli. Allt skólastarfið tekur þannig mið af samþættingu þessara þriggja skólakerfa, sem sveitarfélög á Íslandi reka. Í slíkri samþættingu er fólgin auðlind sem lagt er kapp á að nýta í öllu starfi Stórutjarnaskóla.

Samkvæmt 45. gr., grunnskólalaga sem tóku gildi 1.júlí. 2008 er sveitarfélögum heimilt að reka saman grunnskóla, leikskóla og tónlistarskóla undir stjórn eins skólastjóra að fenginni umsögn skólanefnda. Skal stjórnandi slíkrar stofnunar hafa leyfisbréf til kennslu á leik- og/eða grunnskólastigi. Sveitarstjórn getur ákveðið að skólaráð, sbr. 8. gr., og foreldraráð, sbr. 11. gr. laga um leikskóla, starfi sameiginlega í einu ráði. Ákvæði þetta gildir einnig um skóla sem reknir eru á grundvelli 1. mgr. Hinn samrekni skóli starfar að öðru leyti samkvæmt lögum um viðkomandi skólastig.

Samþætting leik-, grunn- og tónlistarskólastigs í Stórutjarnaskóla er mikilvægur hluti uppeldis- og kennslufræða. Einnig er hún talin mikilvæg til að auka tónlistarkennslu og listfræðslu í menntun einstaklinga í nútíma samfélagi. Það er ekki bara í samræmi við nútímalega menningar og menntastefnu, heldur eflir það líka tilfinningalegan og listrænan þroska, mótar viðhorf og eflir einbeitingarhæfni, samvinnu og ögun. Í Stórutjarnaskóla eru góðar aðstæður og vilji til að vinna í þessum anda. Samþætting skólanna er líka viðleitni til að bregðast við fólksfækkun á skólasvæðinu með því að hagræða í skólarekstrinum og ná fram betri nýtingu á húsnæði, aðstöðu og starfsfólki.

 

Fyrir sex ára börn eru það mikil tímamót þegar þau færast úr leikskóla í grunnskóla. Skólastigin eru í grunninn að mörgu mjög ólík, bæði hvað varðar ytra og innra umhverfi. Allt er stærra og fjarlægara í grunnskólanum og skipulag kennslustunda frábrugðið innra skipulagi leikskólans. Oft eru gerðar aðrar og öðruvísi kröfur til barna í grunnskóla en í leikskóla. Þá er félagslegt umhverfi einnig með öðrum hætti, það er mikill munur á því að vera í elsta árgangi leikskólans eða þeim yngsta í grunnskólanum svo eitthvað sé nefnt.

 

Til að þessi tímamót verði börnum sem auðveldust er mikilvægt að náið og gott samstarf ríki á milli starfsfólks skólastiganna, að þekking þeirra nái til beggja skólastiga og að ríkjandi sé sameiginleg sýn á börnin, nám þeirra og kennslu (Jóhanna Einarsdóttir; 2007). Þá er ekki síst mikilvægt að foreldrar séu vel upplýstir og þekki vel til aðstæðna.

Í Stórutjarnaskóla eru allar aðstæður svo að hægt sé að bregðast við þeim þáttum sem hafa áhrif. Auðvelt er að samræma kennsluaðferðir skólastiganna og þekking, áhugi og samræmd sjónarmið starfsfólks eru fyrir hendi, sem veitir tækifæri til framkvæmda. Auðvelt er að beita hugmyndafræði leikskólans inni í grunnskólanum og nýta það besta frá báðum skólastigum. Hugmyndir Deweys um að börn læri best með því að rannsaka og uppgötva eftir lýðræðislegum leiðum undir styrkri stjórn fagmannsins eiga prýðilega við á báðum skólastigum (Jóhanna Einarsdóttir; 2007). Þannig læra börn í leikskóla ýmsa þætti stærðfræðinnar, grunninn að læsi, samfélagslega þætti og tilfinningalega og síðast en ekki síst listina að skapa. Þetta nám heldur svo áfram í grunnskólanum og fellur þá undir stærðfræði í víðari skilningi, lestur, skrift, samfélagsfræði, lífsleikni, myndlist o.s.frv.

 

Fjölbreytilegar leiðir í kennslu eru nauðsynlegar svo þörfum og hæfileikum barnanna verði mætt sem best. Með þetta að leiðarljósi leitast starfsfólk Stórutjarnaskóla við að flétta saman þessi þrjú skólastig svo samfella náist í námi barnanna.

 

Leiðir:

 • gagnkvæmt samráð starfsfólks
 • þátttaka leikskólabarna í kennslustundum í grunnskólanum
 • þátttaka grunnskólabarna í starfi leikskólans
 • allir nemendur fá tónlistarkennslu þar sem helstu þættir eru tónlistarleg upplifun, söngur og efling takts og tónheyrnar
 • nemendur á grunnskólastigi læra tónmennt samkv. námskrá grunnskóla
 • allir nemendur (nema yngstu nemendur leikskólans) eiga kost á að læra á hljóðfæri, en greiða fyrir það sérstaklega (tónlistarskóli)
 • allir nemendur taka þátt í og hlusta á tónlistarflutning á menningarstundum
 • nemendur í tónlistarskóla koma fram á nemendatónleikum
 • sameiginlegt borðhald á matmálstímum
 • sameiginleg þátttaka í ýmsum viðburðum
 • samnýting húsnæðis og kennslugagna
 • samnýting starfsfólks
 • sameiginlegt útivistarsvæði
 • samnýting skólabíla