Heilsueflandi skóli

Heilsueflandi skóli


Hugmyndafræði heilsueflandi skóla byggir á öllum þáttum skólastarfsins sem hafa bein eða óbein áhrif á heilsu og líðan nemenda. Þar með eru þeir hvattir til að tileinka sér heilbrigða lífshætti í samræmi við þau skilaboð og þá fræðslu sem haldið er á lofti. Grunnatriði Stórutjarnaskóla sem heilsueflandi skóla er að vera með stefnumótun, sem m.a. birtist í matseðlum mötuneytisins og starfi umhverfis- og lýðheilsunefndar skólans. Þá hefur skólinn sett sér umhverfis- og lýðheilsustefnu og umhverfis- og lýðheilsusáttmála. Allir nemendur skólans fara út minnst tvisvar á dag og yngri nemendur læra markvisst í útiskóla. Lögð er áhersla á að góð heilsa og hreyfing er undirstaða vellíðunar og árangurs í námi. Í skólanum gefast oft góð tækifæri til að flétta heilbrigðismál og heilsuumræður saman við meginviðfangsefnin og víkka þannig sjóndeildarhring nemenda. Oft tengjast umhverfis- og heilbrigðismál og því auðvelt að samþætta þau. Í Stórutjarnaskóla er leitast við að stuðla að lýðræði og jafnrétti meðal nemenda, þjálfa þá á ýmsa lund, s.s. í handbragði, hugsun og framkomu og vekja áhuga þeirra á umhverfis- og heilsumálum. Allt þetta getur hjálpað þeim við að byggja upp sjálfsmynd sína og bæta námsgetu.


Hugmyndin um heilsueflandi grunnskóla er byggð á Ottawa-sáttmála Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um heilsueflingu. Landlæknisembættið stýrir verkefninu og unnið er eftir handbók um heilsueflandi skólastarf. Um er að ræða átta grundvallaratriði varðandi heilsueflingu í skólum sem má nálgast á heimasíðu Landlæknisembættisins.