Grenndarvitund

Gegnir og Engilækur.

Flest vatnsföll falla í átt til sjávar eða sameinast ám eða lækjum sem eru á þeirri leið. Þetta leiðir af sjálfu. Þó eru til vatnsföll þar sem svo hagar til í landslagi að þau renna inn til landsins í átt frá sjó. Í þessum pistli koma við sögu tveir slíkir lækir hér í okkar nágrenni. - Gegnir kemur upp í mýrunum neðan við Halldórsstaði og Finnstaði í Kinn og tekur stefnu í suð-austur, eins og hann ætli að renna suður allan Bárðardal. Fljótlega verður þessi fyrirætlun litla lækjarins þó að engu, því Djúpáin verður á vegi hans, hefur vit fyrir honum og beinir honum í hefðbundna stefnu vatnsfalla, fyrst í Skjálfandafljót, en síðan til sjávar. - Langt suður á Fljótsheiði er annar lækur, sömu náttúru. Það er Engilækurinn. Hann kemur úr Engitjörn, rennur suður samnefndan dal og stefnir í átt til jökla. Litlu vestar, niðri í Bárðardal, beljar Skjálfandafljótið hins vegar í gagnstæða átt, norður til Skjálfandaflóa. Að lokum fer þó eins fyrir Engilæknum og Gegni, á vegi hans verður stærra og lífsreyndara vatnsfall, sem leiðir hann á rétta braut. Skammt norðan við Víðiker í Bárðardal rennur Engilækurinn í Grjótá, sem síðar rennur í Skjálfandafljót. Um Engilækinn orti Hjálmar Stefánsson í Vagnbrekku í Mývatnssveit:


Á aðra mílu í átt frá sjó
er þar skrítinn kækur.
Rennir sér í þröngri þró
þögull Engilækur.

 

Fnjóská

Fnjóská er lengsta bergvatnsá á Íslandi, 117 km löng. Hún á upptök sín langt suður á Sprengisandi og safnar til sín fjölda smálækja á leið sinni til byggða. Hún fellur um Bleiksmýrardal en ár Timburvalladals og Hjaltadals sameinast í Bakkaá, sem síðan rennur í Fnjóská. Skarðsá, Grjótá, Nesá, Þingmannalækur og Árbugsá falla einnig í Fnjóská. Ár sem þannig verða til við samruna ýmissa lækja og áa nefnast dragár. - Fnjóská er allvatnsmikil og víða straumhörð og má geta þess að í vorleysingum vorið 1995 gróf hún undan brúnni við Hróarsstaði þannig að annar endi brúarinnar féll niður og mikið tjón hlaust af. - Fnjóská fellur um Fnjóskadal og Dalsmynni út í Eyjafjörð. Í henni er bæði lax- og silungsveiði.

 

Skjálfandafljót

Skjálfandafljót kemur að suð-austan í botn Bárðardals og steypist þar niður í gljúfur í Ingvararfossi og Aldeyjarfossi. Auk þeirra eru í Skjálfandafljóti fossarnir Gjallandi, Hrafnabjargafoss, Goðafoss, Barnafoss og Ullarfoss. Goðafoss er þeirra kunnastur, 11 m hár. Skjálfandafljót er fjórða lengsta á landsins og er 178 km. Í Skjálfandafljóti er eyjan Þingey, en af henni draga Þingeyjarsýslur nafn sitt. Hrútey, Skuldaþingey, Öxarárey/Hvarfsey og Valley, eru einnig eyjar í Fljótinu. Þrjár brýr eru á Skjálfandafljóti, undan Ófeigsstöðum í Kinn, hjá Goðafossi og Stóruvöllum í Bárðardal.

 

SÍS

Hinn 20. febrúar árið 1902 var stofnað að Ystafelli í Kinn, Sambands-kaupfélag Þingeyinga. Aðilar að því voru Kaupfélag Þingeyinga, Kaupfélag Norður-Þingeyinga og Kaupfélag Svalbarðseyrar. Þegar í upphafi var ætlunin að sambandið yrði landssamtök allra kaupfélaga, sem það og varð. Breyttist nafnið brátt, fyrst í Sambandskaupfélag Íslands og loks í núverandi nafn, Samband íslenskra samvinnufélaga, eða SÍS. - Árið 1952 var reistur minnisvarði um stofnun SÍS, á hlaðinu í Ystafelli. Stendur hann þar enn og blasir við vegfarendum þegar þeir aka eftir Kinnarvegi. - Samband íslenskra samvinnufélaga er 100 ára á þessu ári.

 

Ljósavatn

Ljósavatn er annað stærsta stöðuvatn í Suður-Þingeyjarsýslu, næst Mývatni, 3,2 ferkílómetrar að stærð. Það er víðast alldjúpt en botn ósléttur. Gamlar sagnir hermdu að rennt hefði verið 60 m færi í vatnið, en ekki fundist botn. Er það til marks um að fyrrum hafi menn talið þar mikið hyldýpi. Síðari tíma mælingar hafa leitt í ljós að mesta dýpi vatnsins er um 35 m. Í Ljósavatn falla margir lækir, þeirra stærstir mundu vera Geitá og Litlutjarnalækur, en úr vatninu rennur einungis eitt vatnsfall, Djúpá. Ekki vita menn gerla um uppruna nafnsins Ljósavatn. Ein tilgátan er sú, að vegna dýpis þess verða öldur nokkuð stórar og hvítnar fljótt í báru ef hvasst er. Í hvössum vindi sem oft hendir í Ljósavatnsskarði, verður Ljósavatnið eins og eitt hvítfyssandi haf yfir að líta.

 

Þorgeirsboli

Þorgeirsboli var einn af mögnuðustu draugum á Íslandi. Þorgeir Stefánsson á Végeirsstöðum í Fnjóskadal vakti hann upp á 18. öld og hugðist senda hann stúlku nokkurri í Hrísey en hún vildi ekki giftast Þorgeiri. Annar galdramaður kom þá til skjalanna og sendi drauginn á hendur Þorgeiri sjálfum og fylgdi hann síðan honum og afkomendum hans. Bolakálfur þessi var fleginn aftur á malir eða hala og dró blóðuga dræsuna á eftir sér. Fyrir kom að ófrægari draugar sátu á húðinni og ferðuðust þannig fyrirhafnarlítið. Þorgeirsboli sást víða um land og brá jafnvel fyrir augu manna í Ameríku, en einhverjir afkomenda Þorgeirs fluttust til Vesturheims.

 

Steinbogabrú yfir Fnjóská

Gamla bogabrúin yfir Fnjóská hjá Vaglaskógi var byggð árið 1908. Hún var fyrsta brú þeirrar gerðar hér á landi, og talin á þeim tíma ein lengsta steinbogabrú í Evrópu. Þessi brú er eins og allir sjá mjög fallegt mannvirki. Hún hefur nú verið endurbætt og fegruð, og er eingöngu notuð sem göngubrú. ,,Fnjóskárbrúin hjá Skógum" var lengi eina brúin yfir Fnjóská, en nú eru þær sex talsins. Tvíbreiða brúin sem við ökum á leið um Ljósavatnsskarð og Fnjóskadal var byggð 1968. Það er mikið mannvirki, en miklu meiri þraut mun það hafa verið að reisa steinbogann 60 árum fyrr.

 

Unglingaskóli á Ljósavatni.

Á Ljósavatni var á árunum 1904 - 1914 starfandi unglingaskóli. Fyrsti skólastjóri hans var sr. Sigtryggur Guðlaugsson, síðar prestur og skólastjóri á Núpi í Dýrafirði. Jónas Jónsson frá Hriflu var þar einnig skólastjóri um tíma. Skólinn hafði húsnæði í gömlu þinghúsi sem var sameign hreppsins og sýslunnar og í stóru timburhúsi sem þáverandi bændur á Ljósavatni höfðu reist. Stundum sváfu skólapiltar á lofti kirkjunnar sem enn stendur. Þessi skóli má teljast einn fyrsti vísir að Héraðsskóla Þingeyinga sem síðar reis að Laugum í Reykjadal, 1924, en áður en það gerðist hafði um einhver ár verið starfandi unglingaskóli á Breiðumýri.

 

Bárður Bjarnarson - landnámsmaður.

 

Bárður Bjarnarson var einn landnámsmanna og nam Bárðardal allan frá Kálfborgará og Eyjardalsá. Hann bjó fyrst á Lundarbrekku. Hann markaði það af veðrum að betra mundi til beitar og búskapar sunnan fjalla, því flutti hann búferlum og bjó á Gnúpum í Fljótshverfi. Eftir það var hann kallaður Gnúpa-Bárður. Einn afkomanda hans var Þorgeir goði á Ljósavatni.

 

Þórir snepill - landnámsmaður

 

Þórir snepill hét maður og var sonur Ketils brimils. Hann sigldi frá Noregi til Íslands og nam Fnjóskadal og bjó í Lundi. Þórir snepill var því fyrsti landnámsmaður í Fnjóskadal. Hann hafði fjós sitt í Fjósatungu en nautin fyrir framan Reyki. Sagt er að Þórir hafi gefið skipverjum sínum af landi sínu og hafi Þórður búið á Þórðarstöðum, Sörli á Sörlastöðum, Hjalti í Hjaltadal, Snæbjörn á Snæbjarnarstöðum, Illugi á Illugastöðum, Veturliði á Veturliðastöðum, Hrói á Hróastöðum (síðar Hróarsstaðir), Ljótur á Ljótsstöðum, Böðvar í Böðvarsnesi, Végeir á Végeirsstöðum og Forni á Fornastöðum. Þá er einnig sagt að Þórir snepill hafi gefið Brúna þræl sínum frelsi og hafi hann reist bú í Brúnagerði.

 

Þorgeir Ljósvetningagoði.

 

Þorgeir hét maður sem bjó á Ljósavatni fyrir 1000 árum og er oftast kallaður Ljósvetningagoði í bókum. Íslendingar skiptust þá í tvo hópa eftir trúarbrögðum og voru sumir heiðnir en aðrir kristnir. Þorgeir var í svo miklu áliti að á Alþingi var hann beðinn að skera úr um það hvor trúarbrögðin skyldi hafa og samþykktu allir að sætta sig við úrskurð hans. Hann ákvað eftir langa umhugsun að Íslendingar skyldu vera kristnir og hefur svo verið síðan. Þorgeir steypti goðum sínum í fossinn sem síðan heitir Goðafoss. Nýja kirkjan, Þorgeirskirkja, tekur nafn af Þorgeiri.

 

 

GRENNDARVITUND - 3. VIKA

 

Brýr yfir Skjálfandafljót.

 

Brúin sem við ökum yfir Skjálfandafljót við Fosshól er sú þriðja á þessum stað. Hún var byggð 1972. ,,Gamla brúin", sem við köllum svo, grindabrúin með trégólfinu sem nú er nýuppgerð og máluð, var vígð við hátíðlega athöfn sumarið 1930. Hún er svo mjó að stórar rútur sátu stundum fastar ef ekki var ekið nákvæmlega rétt inn á brúna. Stöpla elstu brúarinnar má sjá, ef vel er að gáð, undir gömlu brúnni. Hún var byggð 1882 og var tæpast fær bílum.
Brúin yfir Skjálfandafljót hjá Ófeigsstöðum var byggð 1935. Hún er tæplega 200 m löng, og er ein af elstu brúm landsins sem enn er í fullri notkun. Þriðja brúin á Skjálfandafljóti er brúin hjá Stóruvöllum í Bárðardal. Hún var tekin í notkun 1955, talin ein fallegasta hengibrú landsins, með timburdekki, léttbyggð og fínleg.

 

Kári Tryggvason.

 

Kári Tryggvason var fæddur í Víðikeri í Bárðardal 23. júlí árið 1905. Hann var kennari og skáld og fæddist og starfaði lengi hér í heimabyggðinni okkar. Hann stundaði nám við héraðsskólann á Laugum, sem nú heitir Framhaldsskólinn á Laugum og síðar fór hann svo í Gagnfræðaskólann á Akureyri. Hann var bóndi í Víðikeri og kennari í Bárðardal á árunum 1928 - 1954, eða samtals í 25 ár. Kári varð síðan kennari og umsjónarmaður við Barna- og miðskólann í Hveragerði 1954 - 1970 og síðan í Reykjavík til ársins 1973. Hann lést árið 1999. Úlfhildur Dagsdóttir, sem við sjáum stundum fjalla um bækur í Katsljósinu í Sjónvarpinu er dótturdóttir Kára.

 

Garðar Svafarsson og Náttfari.

 

Í Íslandssögu Jónasar frá Hriflu segir af sænskum manni sem Garðar hét Svafarsson. Hann sigldi til Íslands árið 870 eða þar um bil og hafði vetursetu á Húsavík við Skjálfanda. Með honum var þræll sem hét Náttfari. Náttfari slapp frá Garðari ásamt ambátt og flúðu þau yfir Skjálfandaflóa þangað sem heita Náttfaravíkur. Síðar er talið að þau hafi búið á Helgastöðum í Reykjadal. Þetta gerðist nokkrum árum áður en Ingólfur Arnarsson kom hingað til lands og settist að í Reykjavík. Þess vegna halda margir því fram að Náttfari sé fyrsti landnámsmaður á Íslandi og hann settist að í heimabyggðinni okkar.