Grænfána skóli

Í Stórutjarnaskóla hefur verið tekin ákvörðun um að stuðla markvisst að verndun náttúrunnar og uppfræðslu nemenda þar að lútandi. Orðin náttúruvernd og menntun merkja að vernda skuli auðlindir jarðarinnar nær og fjær og að uppvaxandi kynslóðir fái mikilvæga fræðslu svo þau læri að meta og virða þau auðæfi sem felast í náttúrunni. Stuðla þarf að því að jörðin fái til baka það sem mennirnir taka að láni.


Skólinn starfar undir merki Grænfánans en hann er umhverfismerki sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Í grænfánastefnunni er m.a. lögð rík áhersla á lýðheilsu í víðasta skilningi. Því hefur Stórutjarnaskóli gengið formlega í raðir heilsueflandi skóla. Til að vinna markvisst í málaflokknum er kosið í umhverfis- og lýðheilsunefnd á hverju hausti. Í nefndinni sitja fulltrúar allra starfshópa í skólanum og að auki fulltrúar nemenda og foreldra. Þá situr fulltrúi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar fundi nefndarinnar. Þess er vandlega gætt að hafa vægi nemenda mikið og því eru kosnir fulltrúar úr öllum námshópum skólans.