Jólatónleikar Stórutjarnaskóla voru haldnir miðvikudaginn 10. desember og hófust klukkan 14:00. Hátíðleg stemmning ríkti og stóðu nemendur sig með prýði er þeir komu fram og sýndu hvað þeir höfðu æft af kappi síðustu vikurnar. Nemendur stóðu sig einnig mjög vel sem áhorfendur og sýndu samnemendum sínum virðingu.
Að tónleikunum loknum var öllum boðið að kaupa bækur sem nemendur í 5. og 6. bekk höfðu samið og gefið út í tilefni af Bókmenntahátíð barnanna sem haldin var á Hrafnagili vikuna áður. Börnin voru stolt af verkum sínum og sýndu mikla ánægju með að deila verkum sínum með öðrum. Vel hefur safnast í bóksölunni og mun ágóðinn renna til Barnadeildar sjúkrahússins á Akureyri. Við þökkum kærlega fyrir frábærar móttökur og góðan stuðning.
Veitingar voru einnig í boði í matsal skólans þar sem gestir gátu spjallað saman og notið góðrar samveru.
Virkilega góður dagur þar sem jólastemmning og ánægjuleg samvera var áberandi.
BD