Landshlutafundir Grænfána

Landshlutafundir Grænfána 2024 Stórutjarnaskóla

Grænfáninn er alþjóðlegt verkefni sem Landvernd heldur utan um á Íslandi. Skólar á grænni grein fá afhentan Grænfána að uppfylltum nokkrum skilyrðum. Stórutjarnaskóli hefur verið á grænni grein frá því að Sigrún Jónsdóttir fyrrverandi kennari við skólann kynnti fyrir okkur verkefnið og stýrði innleiðingarferli okkar að því að verða Grænfánaskóli. Skólinn fékk sinn fyrsta Grænfána afhentan 2011.

Í þessari viku er Grænfána verkefnið sérstaklega áberandi í starfi Stórutjarnaskóla þar sem Landshlutafundir Grænfána eru haldnir hér í skólanum en þeir eru haldnir á tveggja ára fresti í hverjum landshluta. Þær Sigurlaug, Guðrún og Ósk frá Landvernd skipulögðu og stýrðu fundunum og verða þær með erindi á Umhverfis- og lýðheilsuþinginu okkar sem haldið verður síðasta vetrar dag 24. apríl. Þingið er liður í útbreiðslu Grænfána verkefnisins út til samfélagsins og bjóðum við alla velkomna á þingið sem hefst kl. 13:00.

Á fundinn á mánudaginn komu saman fulltrúar nemenda og starfsfólks úr umhverfisnefndum grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla á norðurlandi. Fundarefnið var m.a. menntun til sjálfbærni, útikennsla, flokkun, neysla og hringrásarkerfið. Rætt var um hvernig verkefni Grænfánans fellur að námi og kennslu skólanna og fulltrúar kynntu verkefni í sínum skólum. Í dag þriðjudag komu svo saman fulltrúar kennara í leikskólum á norðurlandi. Uppfylla þarf sömu skilyrði á leikskólastigi og öðrum skólastigum en nálgunin er að ýmsu leiti öðruvísi. Innlögn er mest í gegnum leik og útiveru. Á fundi leikskólakennara í dag var farið í gegnum megináherslur Grænfána í leikskóla, skipts á mörgum og fjölbreyttum hugmyndum að Grænfána verkefnum og farið í leiki úti í góða veðrinu.

Við þökkum þeim Sigurlaugu, Guðrúnu og Ósk fyrir skemmtilega og fróðlega fundi.

Hlökkum til að sjá sem flesta á þinginu á morgun.