Útifrímínútur

Snjórinn hefur ekki verið mikið til trafala hjá okkur það sem af er vetri. Þó höfum við nokkrum sinnum fengið góða hríðarhvelli, sem hafa skilið eftir talsverðar snjódyngjur í brekkunni austan við skólann. Það gleður börnin, sérstaklega þau yngri, sem hafa nýtt útifrímínúturnar vel í veðurblíðunni undanfarna daga. Þeim finnst alls ekkert leiðinlegt að kútveltast í snjónum og renna sér á rassinum niður brekkuna, stundum mörg saman. Það má lengi finna sér þar skemmtilegt til dundurs, enda býður snjórinn upp á margbreytilega sköpun.