Vettvangsferð 23. janúar 2024

Síðastliðinn þriðjudag fóru mið og elsta stig Stórutjarnaskóla í vettvangsferð til Akureyrar að læra og skoða hvað verður um rusl og efni sem frá okkur fer eftir notkun.

Byrjað var á að heimsækja Terra þar sem Helgi Pálsson tók á móti hópnum og fræddi um það hvernig farið er með plast, pappa og almennt sorp sem sótt er til okkar í sveitarfélagið. Hann sýndi okkur vinnslurýmin þar sem tekið er á móti efninu og hvernig þeir síðan skila frá sér til áframhaldandi vinnslu.

Síðan var hópnum skipt í tvennt og farið í Rauða krossinn og Fjölsmiðjuna en báðir þessir staðir vinna að endurnýtingu, annars vegar fatnaðar og hins vegar húsbúnaðar, raftækja, hjóla og fleiri hluta.

Í Fjölsmiðjunni fengum við að sjá verkstæðin þar sem m.a. er gert við raftæki og sáum líka mötuneytið þar sem upp í 120 manns koma í hádegismat.

Í Rauðakrossinum fengum við bæði fræðslu um starfsemina og að taka þátt í að flokka föt. Þ.e. að velta fyrir okkur hvað færi beint í sölu í búðinni, hvað á markað og hvað í endurvinnslu. Eftir góðan mat á Greifanum fórum við í heimsókn í Moltu þar sem við fræddumst um moltugerð en þangað kemur efni víða frá norður og austurlandi. Við lærðum um tímalengd við moltugerðina og fengum að sjá bæði vélarnar og eins moltuhaugana sem eru afrakstur verkefnisins.

Dagurinn var afar lærdómsríkur og nemendur til fyrirmyndar í heimsóknunum.